Betra líf - Kennsluleiðbeiningar fyrir unglingastig
Betra líf - Kennsluleiðbeiningar fyrir unglingastig
Betra líf er þemaverkefni þar sem nemendur útbúa líkan af samfélagi/þjóðfélagi þar sem áhersla er lögð á heilbrigði og velferð íbúanna. Í þessu tilbúna samfélagi eru Heimsmarkmiðin og Barnasáttmálinn í hávegum höfð. Verkefnið er 30 námseiningar. Það er í tveimur hlutum sem hægt er að taka fyrir í einu samfelldu þema eða skipta upp í tvö eða fleiri verkefni. Níu námseiningar eru sjálfstæð valverkefni. Verkefni fyrri hlutans eru almennt samvinnuverkefni. Það getur kallað á einstaklingsverkefni fyrir einstaka nemendur, annað hvort til að hvíla þá frá samvinnuverkefnum eða til að vinna alveg sjálfstætt.
Í fyrri hlutanum fjalla námseiningarnar hver af annarri um lykilhugtök sem tengjast efninu. Þannig mynda verkefnin samfellu þar sem nemendur læra að beita hugtökunum og yfirfæra þau yfir á fyrirmyndarsamfélag sem krakkarnir fá sjálfir að skapa. Verkefnið endar með sýningu á samfélaginu þar sem hóparnir kynna verkefnin og nota hugtökin sem nemendur hafa tileinkað sér.
- Áætluð lengd: Heildartímafjöldi getur verið til dæmis 2x2 kennslustundir á viku í 6 vikur eða 24 tímar. Það er auðvelt að fara dýpra í verkefni og nota þannig meiri tíma í hvert þeirra. Þannig má til dæmis gefa þemaverkefninu fasta tíma í töflu nemenda í eina önn eða heilt skólaár, vinna með eina námseiningu í nokkrar kennslustundir, eða taka út einstaka verkefni og vinna bara með þau. Mikilvægt er að kennarar lesi þemaverkefnið vel í gegn og geri þær breytingar sem henta hverju sinni.
- Námsgreinar: Íslenska, list- og verkgreinar, lykilhæfni, náttúrugreinar, samfélagsgreinar, stærðfræði, upplýsinga- og tæknimennt eru samþætt inn í námsferlið og STEM verkefni fylgir svo með viðbótarverkefnunum í lokin.
- Elsta stig: Þetta þemaverkefni er skrifað fyrir elsta stig. Verkefnið má þó auðveldlega vinna með yngri nemendum, með því að uppfæra hæfniviðmiðin og aðlaga viðfangsefnin.
Fyrirkomulag náms nemenda í þemaverkefninu Betra líf byggir að mestu á samvinnunámi (e. Cooperative learning). Markmiðið er að nýta samvinnuna til þess að styrkja félagsfærni, efla samkennd og auka virðingu fyrir samnemendum. Í þemaverkefninu Betra líf er búið að útfæra dæmi um námsferlið í þemaverkefninu og byggja samvinnuna þar inn í. Kennurum er falið að útfæra hópaskiptinguna á fjölbreyttan hátt. Forþekkingarverkefni eru oft einstaklingsverkefni en í kjölfarið hefst samvinna og frekari útfærsla á hverju viðfangsefni fyrir sig. Í námsferlinu gera nemendur sína eigin verkefnalýsingu og setja sér viðmið um árangur sem þeir nota til að máta afurðina sína við og vinna þannig með kennaranum að lokamati á þemaverkefninu. Hæfniviðmið og viðmið um árangur nemenda hafa verið sett við hvert verkefni inni í námsferlinu. Hægt er að meta hvern þátt um leið og hann hefur verið unninn.
Nemendur halda utan um vinnu sína í verkdagbók sem myndar ferilmöppu verkefnisins frá hugmynd að lokaafurð. Áður en þemað hefst eiga nemendur sjálfir að ákveða hvar þeir halda utan um verkdagbókina sína. Verkdagbókin hefur að geyma verkferla, ígrundanir og lýsingar á þeim verkefnum sem þeir vinna. Það er kostur ef nemendur hafa aðgang að prentara.
Stóra samvinnuverkefnið - það að búa til líkan af samfélagi/þjóðfélagi byggir á Landnámsaðferð Herdísar Egilsdóttur. Þó er ekki skilyrði að þjóð verði til. Nemendur mega líka skapa minni samfélög. Lögð er áhersla á að verkefnaskil nemenda séu fjölbreytt og á þeirra forsendum. Í gegnum námsferlið í þemaverkefninu taka nemendur oft þátt í umræðum, draga saman aðalatriði og kynna niðurstöður. Við lok námsferlisins skipuleggja þeir stóra kynningu á þemaverkefninu og bjóða gestum.