Gerð námsvísa. Fáanlegt sem starfsdagur eða námskeið
Gerð námsvísa. Fáanlegt sem starfsdagur eða námskeið
Ráðgjafar Ásgarðs hafa frá árinu 2017 aðstoðað skóla við að innleiða námsvísa þar sem grunnþættir menntunar marka áherslur skólaársins í sex meginþemum. Námsvísarnir eru sjónrænt skipulag sem sýna fyrirhugað nám skólaársins. Þeir eru gjarnan gerðir til þriggja eða fjögurra ára í senn.
Námsvísar eru einföld leið til þess að ákveða helstu námsmarkmið sem fyrirhugað er að fást við á komandi skólaári. Námsvísarnir, eins og þeir hafa verið settir fram með samstarfsskólum Ásgarðs, gera ráð fyrir því að sex eða færri meginþemu með grunnþætti menntunar að leiðarljósi vísi veginn á skólaárinu. Þannig hafa grunnþættir menntunar skýr og bein áhrif á allt nám í viðkomandi skóla eða á viðkomandi skólastigi.
Á undanförnum árum hafa bæst við kennarateymi sem nýta sér námsvísa innan skólanna til að koma sér saman um nám vetrarins. Með tímanum safnast námsvísar saman í nokkurra ára rúllur sem hægt er að leggja til grundvallar í framtíðar skipulagi.
Fyrirmynd námsvísanna er að finna hjá IB skólum sem starfa víða um heim. Þeirra námsvísar byggja á þeim grunnstoðum sem stefna IB skólanna hvílir á. Ráðgjafar Ásgarðs bjuggu til fyrsta námsvísinn í samstarfi við Menntamálastofnun. Verkefnið snerist um að innleiða grunnþáttinn lýðræði og mannréttindi. Upp frá því byrjuðu nokkrir skólar að nota námsvísa undir leiðsögn ráðgjafa Ásgarðs. Þeir skólar sem hafa hvað lengst unnið með námsvísa eru Grunnskólinn á Hólmavík, Patreksskóli, Grunnskólinn í Bolungarvík og Tálknafjarðarskóli. Nú í seinni tíð hafa fjölmargir stærri skólar í Kópavogi, á Akureyri, í Reykjavík og um allt land tekið upp sjónræna námsvísa.
Á námskeiði eða starfsdegi um gerð námsvísa er farið yfir sérstöðu hvers skóla, markmið þróunarstarfs í skólanum og metið hvernig best sé að hefja innleiðingu námsvísa. Því næst vinna kennarar í hópum við að útfæra leiðir til að sammælast um framtíðarskipulag náms og fella það inn í námsvísinn.
Meginmarkmið námskeiðsins er að finna bestu leiðirnar til að efla og skýra námsmarkmið skólastarfsins og setja þau fram á skilmerkilegan og skiljanlegan hátt með hverjum skóla eða kennarateymi fyrir sig. Gerð sjónrænna og einfaldra námsvísa auðveldar kennurum, nemendum, stjórnendum og skólasamfélaginu öllu að vera með skýra sýn á það nám sem á sér stað á hverjum tíma í skólastarfinu. Slíkt skipulag samræmist vel markmiðum leiðsagnarnáms og gæðastarfs í skólum.
Úr uppfærðum gæðaviðmiðum MMS um gæðastarf í grunnskólum:
- Grunnþáttum menntunar er gerð skil í námsvísum og áætlunum um nám.
- Námsvísar og markmið náms eru greinargóð og byggja á hæfniviðmiðum aðalnámskrá.
- Námsvísar og áætlanir endurspegla þessar áherslur, svo sem um eflingu læsis, skóla án aðgreiningar, kennslu í íslensku sem öðru máli og sérstakar áherslur sveitarfélags.
- Námsvísar/bekkjarnámskrár eða árganganámskrár eru kynntar með markvissum hætti fyrir nemendum og foreldrum og þeir hvattir til að nýta sér þær.
- Fram kemur í námsvísum og áætlunum um kennslu hvernig námsaðlögun er háttað í hverri námsgrein eða viðfangsefni.
- Í námsvísum kemur fram hvernig unnið er að því að efla lykilhæfni allra nemenda.